Reynir Ingibjartsson fjallar um Framkvæmdasjóð aldraðra: \"
Í stað samráðs og sameiginlegs átaks með samtökum eldri borgara og aðstandenda þeirra, hefur verið flaggað fögrum loforðum án innihalds.\"
EINN er sá skattur sem allir landsmenn greiða frá 16 ára aldri til 67 skatturinn í Framkvæmdasjóð aldraðra, líklega að undanskildum þeim sem aðeins greiða fjármagnstekjuskatt! Hann var settur á með lögum 1981 og átti að standa undir byggingu hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða. Illu heilli var gerð sú breyting upp úr 1990 að heimila framlög úr sjóðnum til rekstrar heimila aldraðra. Þetta leiddi til þess að nærri helmingi tekna eða tæpum 5 milljörðum var ráðstafað til annars en nýbygginga. Afleiðingin langir biðlistar eftir hjúkrunarrými og hátt í eitt þúsund manns ennþá í fjölbýli á hjúkrunar- og dvalarheimilum.
Siv gefur út bækling Framkvæmdasjóður aldraðra borgar
Fyrir skömmu kom í ljós að sjálfur heilbrigðisráðherrann, mitt í þessu ástandi lét sjóðinn borga fyrir sig, gerð og dreifingu bæklings, þar sem sýn ráðherrans í öldrunarmálum var vegsömuð. Samtals kostaði þetta sjóðinn 1.324.558 kr. Þar má finna kafla um fjölgun hjúkrunarrýma á næstunni sem forgangsverkefni ráðherrans og nefnt í því sambandi, Hafnarfjörður og Garðabær, Lýsislóðin í Reykjavík og heimilið við Suðurlandsbraut, en það á að taka í notkun 2008 samkvæmt framtíðarsýn hans. Við úthlutun úr Framkvæmdasjóðnum fyrir 2007 er hins vegar ekki króna til þessara staða. Megnið af peningunum fer reyndar á gamalkunnar slóðir eins og til Hrafnistu, Grundar og Eyrar eða til verkefna, sem tengjast þessum stofnunum. Rifja má upp að forveri Sivjar í embætti, Jón Kristjánsson, skrifaði undir yfirlýsingu vorið 2002 um að hjúkrunarheimilið við Suðurlandsbraut ætti að komast í gagnið 2005! Því miður er þessi bæklingur ekki einu sinni pappírsins virði, enda helmingur hans, myndasýnishorn af gömlu fólki og það bitastæðasta í textanum, tekið upp úr ályktunum og stefnumálum samtaka eldri borgara.
Borgað og borgað úr sjóðnum
Framkvæmdasjóður aldraðra hefur hins vegar borgað ýmislegt fleira. Með harðfylgi hafa þær, Margrét Margeirsdóttir, stjórnarmaður í sjóðnum og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingkona, kríað út takmarkaðar upplýsingar um greiðslur úr sjóðnum og þar kemur margt fróðlegt í ljós. Sjóðurinn virðist mjög velviljaður söng- og tónlistarlífi í landinu og tónleikahald var styrkt um 669 þúsund krónur á sl. ári. Fyrr hlaut Óperukórinn í Reykjavík hálfa milljón og ýmsir þekktir tónlistarmenn hafa notið góðs af sjóðnum. Mest fær þó Háskóli Íslands, þar sem sjóðurinn fjármagnar árlega heila kennarastöðu og styrkir auk þess rannsóknarstarf. Tölvufyrirtækið Stiki virðist vera fastur kúnni og fær tugi milljóna árlega og einnig nýtur Landlæknisembættið góðs af sjóðnum. Vinna við svokallað RAI-mat og vistunarmat virðist og fjármagnað með fé úr þessum sjóði. Allt kann þetta að vera gott og gilt, en er það hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra að fjármagna þessi verkefni? Á þessu ári mun sjóðurinn t.d. verja um 60 milljónum króna í hin ýmsu verkefni, alls óskyld viðhaldi og rekstri, hvað þá nýbyggingum. Fyrir þá upphæð mætti margt gera í bráðavanda Alzheimerssjúklinga.
Gögn horfin
AFA Aðstandendafélag aldraðra mun ganga stíft eftir því við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, að leggja á borðið öll gögn og ársreikninga um greiðslur úr Framkvæmdasjóðnum a.m.k. frá árinu 1992. Því er að vísu borið við að eldri bókhaldsgögnum hafi verið eytt vegna fyrningarreglna og annað komið í trausta geymslu. Vonandi eiga þó einhverjir passasamir stjórnarmenn gögn í fórum sínum.
Kjósendur dæmi ráðherrann
Það er dapurt hvernig hinn glæsilegi stjórnmálamaður, Siv Friðleifsdóttir, hefur haldið á málum aldraðra í núverandi ráðherratíð. Í stað samráðs og sameiginlegs átaks með samtökum eldri borgara og aðstandenda þeirra, hefur verið flaggað fögrum loforðum án innihalds. Að seilast sjálf í þennan sjóð allra landsmanna til að fullnægja persónulegum metnaði sínum, ætti að vera fullt tilefni til að biðjast afsökunar hið minnsta. Það hefur hún hins vegar ekki gert og virðist ekkert skammast sín. Kjósendur í hennar kjördæmi verða því að meta það í vor, hvort hún sé á vetur setjandi.
Höfundur er formaður AFA Aðstandendafélags aldraðra.